- - Hausmynd

-

Gervinho & Persie sáu um Stoke

Arsenal hélt áfram góðu gengi sínu í dag með 3-1 heimasigri á Stoke City. Það vakti athygli að Markaþurrð Chamakh byrjaði leikinn á meðan að Persie hvíldi á bekknum. 

Gervinho kom Arsenal yfir á 27. mínútu eftir glæsilegan undirbúning frá Aaron Ramsey. Rambo vippaði þá boltanum yfir vörn Stoke beint á kassann á Gervinho sem lagði hann fyrir sig og skoraði. Glæsilegt mark og menn segja að Barcelona hafi reynt að skora svona mark án árangurs.  

Á meðan að Nallarinn skellti sér á barinn tók Stoke sig til og jafnaði leikinn eftir vafasaman aukaspyrnudóm á Koscielny. Stoke komu Arsenal á óvart með vel útfærðri aukaspyrnu en það var Peter Crouch sem sá um að skora. Virkilega pirrandi og sérstaklega þegar að manni fannst Koscielny ekki vera brotlegur.

Lítið markvert gerðist eftir jöfnunarmarkið og var staðan 1-1 er Lee Mason flautaði til hálfleiks.

Seinni hálfleikur fór rólega af stað og ekki leið á löngu þar til að áhorfendur voru farnir að kalla nafn fyrirliðans, Robin van Persie. Áhorfendur fengu ósk sína uppfyllta á 66. mínútu og lifnaði leikur Arsenal-manna strax við í kjölfarið.

Það tók fyrirliðann ekki nema sjö mínútur að koma sér á blað en hann getur þakkað hinum vel greidda Gervinho fyrir það sem og kannski Asmir Begovic líka. Gervinho óð þá inn í teig af hægri kanti og kom með góða sendingu inná Persie sem lét vaða á markið. Í fyrstu hélt ég að Begovic hefði varið en boltinn hreinlega lak inní netið og staðan orðin 2-1.

Sömu arkitektarnir voru að verki níu mínútum síðar en þá átti Andrey Arshavin fallega sendingu á Gervinho sem hljóp líkt og antilópa inní teig áður en hann fann v. Persie sem afgreiddi boltann í netið en aftur var Begovic í boltanum og hefði líklega átt að gera betur. 

Lokastaðan 3-1 og hefur nú leyndarmálinu um grunsamlega greiðslu Gervinho verið afhjúpað. Gervinho sagði í viðtali eftir leikinn að hann hafi ákveðið ásamt hárskera sínum að færa kollvikið ofar til að fá minni loftmótstöðu í hlaupum sínum. Hann ákvað því að fórna útlitinu fyrir hraðann og eru stuðningsmenn Arsenal þegar búnir að fyrirgefa honum fyrir greiðsluna ljótu eftir frammistöðuna í dag.

Flestir í Arsenal liðinu áttu góðan dag í dag fyrir utan Marouane Chamakh sem og Theo Walcott enda voru þeir báðir teknir af velli. Hvenær ætlar Wenger að sjá það að Walcott er alls ekki að virka sem hægri kantmaður með sínar ömurlegu fyrirgjafir? Væri ekki réttara að spila honum sem framherja í fjarveru v. Persie í staðinn fyrir t.d. Chamakh sem ætlar greinilega ekki að skora meira á þessu ári? Annars hefur Wenger staðfest það að Park Chu Young fái að byrja gegn Bolton í deildarbikarnum á þriðjudaginn og eru það góðar fréttir.

En allt að þokast í rétta átt hjá Arsenal þessa dagana og nú styttist óðum í varafyrirliðann Thomas Vermaelen og þá er bara spurning hvort að Wenger hendi Mertesacker eða Koscielny út úr liðinu. Persónulega finnst mér að Mertesacker ætti að víkja. 

Annars góð fótboltahelgi að baki þar sem að Manchester United fékk að upplifa svipaða martröð og Arsenal gerði á Old Trafford í ágúst síðastliðnum með sjokkerandi 6-1 tapi fyrir nágrönnunum í City í dag. 

gervinho_280x390_563480a

Gervinho fyrir breytingu, hræðilegt að sjá manninn! 


Dramatískur endir í Frakklandi

Það var fátt um dýrðir í leik Arsenal og Marseille í gærkvöldi í meistaradeildinni. Liðin sköpuðu lítið af færum en það voru þá helst Loic Remy og Lucho Gonzalez sem voru nálægt því að skora. Theo Walcott fékk kjörið tækifæri til að skora eftir mistök hjá Alou Diarra í vörninni en Steve Mandanda var vel á verði í markinu.

Arsenal tókst svo loksins að brjóta ísinn en það gerðu þeir í uppbótartíma. Þá geystist Johan Djourou upp kantinn og átti óvenju góða fyrirgjöf fyrir markið sem líklega var ætluð Gervinho. Sem betur fer tókst honum þó ekki að taka boltann niður þar sem að Aaron Ramsey var mættur aðeins utar. Ramsey fékk nógan tíma til að athafna sig og afgreiddi boltann snyrtilega í netið framhjá Mandanda.

Nallarinn á annars erfitt með að gera upp við sig hver var maður leiksins í gær. Vörnin var nokkuð örugg ásamt Alex Song og hafði Szczesny það býsna náðugt í rammanum. Miðjan var hinsvegar slöpp og þá voru Theo Walcott og Andrey Arshavin sérstaklega slappir. Theo Walcott nýtist lítið sem ekki neitt á hægri kantinum og Arshavin virðist vera orðinn of gamall til að byrja leiki. Robin van Persie fékk svo litla sem enga þjónustu í leiknum.

Aaron Ramsey fær þann heiður að vera maður leiksins að þessu sinni enda skoraði hann þetta mikilvæga mark sem reddaði kvöldinu fyrir alla þá sem tengjast Arsenal á eitthvern máta.

Maður leiksins: Aaron Ramsey 

Ramsey Marseille

Greinilega þungu fargi af mönnum létt!
 


Yngsta mark tímabilsins og hollensk sleggja skiluðu 3 stigum

Enn og aftur getum við þakkað foreldrum Robin van Persie fyrir að koma þessum snillingi í heiminn fyrir sirka 28 árum. Það tók fyrirliðann aðeins 29. sekúndur að brjóta ísinn og er það yngsta mark tímabilsins (enn sem komið er) og jafnframt það fljótasta í Arsenal-sögunni í deildinni. Gervinho lagði þá boltann út á Persie sem gerði vel í að skapa sér pláss áður en hann skaut með hægri framhjá Mignolet í markinu. Draumabyrjun.

Hann var svo óheppinn að koma Arsenal ekki í 2-0 á 12. mínútu þegar hann snéri Kieran Richardson laglega af sér og tjippaði boltanum yfir Mignolet að hætti Dennis Bergkamp en því miður neitaði stöngin honum um mark tímabilsins. 

Sunderland komst loksins inní leikinn á 27. mínútu þegar Szczesny ákvað að kíkja í smá skógarferð og skapa þar af leiðandi stórhættu upp við mark sitt en ræstitæknirinn Alex Song bjargaði orðspori Szczesny í þetta skiptið. Þarna öðluðust leikmenn Sunderland trú á verkefninu og var ekki langt í jöfnunarmarkið eftir þetta.

Eftir nokkurn barning fyrir framan markið hjá Arsenal var loksins dæmd aukaspyrna á Mikel Arteta rétt fyrir utan teiginn og það þýddi aðeins eitt, vandræði. Því að í röðum Sunderland má finna dreng frá Svíþjóð sem ber nafnið Sebastian Larsson en hann kemur einmitt upp úr unglingastarfi Arsenal. Ekki veit ég hvar hann lærði að skjóta (allavega ekki hjá Arsenal) en hann hlýtur að teljast með betri skotmönnum deildarinnar um þessar mundir. Hann átti því ekki í vandræðum með aukaspyrnuna sem Arteta færði honum og smellti honum í skeytin vinstra megin. Í endursýningu má sjá nokkuð skondna sýn þegar að Tomas Rosicky lítur ekki einu sinni til baka eftir boltanum þar sem hann veit 100% hvar hann mun enda.

Sunderland hefði getað komist yfir fimm mínútum seinna þegar að Sessegnon átti sendingu fyrir mark Arsenal þar sem mættur var konungur spjaldanna, Lee Cattermole. Það var bara formsatriði hjá Cattermole að skalla þennan bolta inní markið og var hann meira að segja búinn að skipuleggja fagnið sitt. Wojciech Szczesny eyðilagði hinsvegar sunnudagssteikina hans Cattermole með stórbrotinni markvörslu og kom í veg fyrir niðurlægingu á Emirates.

Rétt áður en flautað var til hálfleiks fékk Jack Colback gott færi til að skora en skaut blessunarlega yfir rammann. Howard Webb flautaði til hálfleiks rétt eftir þetta Arsenal stuðningsmönnum til mikillar ánægju sem púuðu duglega á leikmenn Arsenal í kjölfarið. 

Arsenal mætti sterkari til seinni hálfleiks og stjórnaði leiknum algjörlega án þess þó að skapa sér nein afgerandi færi en þetta er vel þekkt vandamál hjá okkar mönnum.

Föstu leikatriðin fóru öll út um þúfur og það var sama hver reyndi. Heyra mátti Sebastian Larsson skellihlæja að sorglegum tilraunum Arteta, Walcott og Santos.

Andrey Arshavin kom nokkuð ferskur inn í leikinn og var nálægt því að koma Arsenal yfir með glæsilegu einstaklings framtaki þar sem hann lék á hvern Sunderland manninn á fætur öðrum. Táin brást honum þó í skotinu sem fór framhjá. 

Það var svo á 83. mínútu sem að Arsenal nýtti sér loksins fast leikatriði og loksins hélt Sebastian Larsson kjafti. Robin van Persie hefði ekki getað beðið um betri staðsetningu og smellti honum í skeytin nær. Glæsilegt mark hjá Hr. Arsenal!

Leikurinn var þó langt frá því að vera búinn eftir þetta og strax eftir markið kom smá taugaóstyrkur í mannskapinn. Sunderland tókst meira að segja að skora en þökk sé rangstöðureglunni var það dæmt ógilt. Mikilvæg þrjú stig því staðreynd sem fleytti Arsenal alla leið uppí 10. sæti. 

Nallarinn var sérstaklega ánægður með frammistöðu Tomas Rosicky í leiknum sem og Carl Jenkinson sem stóð sig vel í fjarveru Bacary Sagna. Robin van Persie var þó langbesti maður vallarins í dag og ljóst að án hans væri Arsenal aðeins miðlungs lið í deildinni.

ML: Robin van Persie 

Hollendingurinn fagnar í dag 
Fyrirliðinn sáttur við gang mála!


Smá uppgjör á síðustu vikum

Það hefur verið nóg að gera hjá Nallaranum síðustu vikur í úthaldi sínu í Noregi. Svo mikið reyndar að skrif hafa þurft að mæta afgangi þar til núna. Það er kominn tími á að rifja upp svona það helsta sem hefur verið í gangi síðastliðnar þrjár vikur.

Arsenal 2 - 1 Olympiacos (28.09.11)

Nallarinn skellti sér í miðbæ Stavanger til að sjá leikinn á Liverpool kránni Beverly's. Ég bjóst við nokkuð þægilegum heimasigri á veikasta liði riðilsins en annað kom heldur betur á daginn. Eftir góða byrjun og tvö mörk frá Alex Chamberlain og André Santos létu þeir grísku Arsenal hafa heldur betur fyrir hlutunum. Blessunarlega náðu þeir aðeins einu marki inn en þau hefðu auðveldlega getað verið allavega tveimur fleiri ef ekki hefði verið fyrir ótrúlega björgun hjá Mikel Arteta og slánna hans Szczesny! Óþægilega lítill sigur en ánægjulegt að sjá nýju mennina.

Maður leiksins: Alex Chamberlain


Tottenham 2 - 1 Arsenal (02.10.11)

Sem betur fer missti Nallarinn af þessum sorgarviðburði en hann var staddur í flugvél á leið til Íslands í vikufrí þegar grannaslagurinn fór fram. Allt sem ég hef heyrt, lesið og séð úr þessum leik virðast úrslitin hafa verið sanngjörn. Szczesny hélt Arsenal mönnum inní leiknum allt þar til á 73. mínútu þegar Kyle Walker skoraði með föstu skoti sem sá pólski hefði nú samt átt að verja. Ofan á það að fá ekkert út úr þessum leik meiddist Bacary Sagna afar illa og verður frá líklega í 2-3 mánuði. Þetta þýðir að finnska undrabarnið Carl Jenkinson mun fylla skarðið á meðan og get ég hreinlega ekki beðið eftir næsta leik!

Maður leiksins: Wojciech Szczesny


Chamberlain skorar þrennu gegn Íslandi

Á meðan Nallarinn dvaldi á Íslandi skellti hann sér að sjálfsögðu á landsleikinn hjá Íslandi og Englandi í þeim eina tilgangi að bera Alex Chamberlain og Henri Lansbury augum. Chamberlain olli ekki vonbrigðum og setti þrennu og getur svo sem þakkað Arnari Darra fyrir allavega tvö þeirra en sá síðarnefndi átti afar slæmt kvöld í Laugardalnum. Nú má jafnvel fara að gefa Chamberlain fleiri leiki í byrjunarliði Arsenal en hann lofar virkilega góðu. 


Af hinum og þessum

Nokkrir Arsenal leikmenn voru á skotskónum með landsliðum sínum auk Chamberlain en þar voru á meðal Park Chu Young, Andrey Arshavin, Aaron Ramsey og Maroune Chamakh. Hvenær fær maður svo að sjá Park Chu Young spila eitthvað í þessu blessaða liði? Hann skorar og skorar fyrir S-Kóreu en gerir ekkert hjá Arsenal nema að drekka vatn. Gervinho og Theo Walcott hjálpuðu svo sínum liðum fyrir framan markið með einni stoðsendingu hver. Svo má ekki gleyma að Alex Song þarf ekki að hafa áhyggjur af Afríkumótinu eftir áramót þar sem að Kamerún náði ekki sæti í keppninni. Arsenal stuðningsmenn hljóta að fagna þeim tíðindum enda akkeri miðjunnar mikilvægt á þessum síðustu og verstu. 

Annars er það að frétta af krísunni í vörninni að Laurent Koscielny og Johan Djourou eru leikfærir sem og Sebastian Squillaci en Nallaranum þykir ólíklegt að hann fái að byrja gegn Sunderland um næstu helgi.

Sunderland kemur sem sagt í heimsókn á Emirates leikvanginn næstkomandi sunnudag en það er einmitt fyrsta hópferð Arsenal klúbbsins í vetur. Vonandi verða úrslitin ánægjuleg svo maður nenni að halda umræðunni áfram hér á Nallaranum.

Lifið heilir elskur Nallarar, verið sterkir á þessum síðustu og verstu! 


Hundraðasta markið kom gegn Bolton

Maður gat loksins brosað í leikslok er Arsenal vann Bolton 3-0 á Emirates leikvanginum sem hefur oft verið þéttari setinn.

Fyrri hálfleikurinn var reyndar ekkert sérstaklega spennandi. Arsenal stjórnaði ferðinni án þess að skapa sér neitt af viti. Darren Pratley kom Bolton reyndar næstum yfir með skemmtilegri tilraun eftir aukaspyrnu en Szczesny sá sem betur fer við kauða. Van Persie átti svo flotta aukaspyrnu stuttu síðar en hann þurfti að bíða aðeins lengur eftir sínu 99 marki fyrir félagið. Gervinho átti svo síðasta færi fyrri hálfleiks með hörkuskoti fyrir utan teig. Enginn hefur andað léttar en Grétar við að sjá boltann fara uppí stúku enda hafði hinn hárfagri farið illa með siglfirðinginn í aðdraganda færisins.

Eitthvað hefur hálfleiksræða Wengers kveikt í mannskapnum því að seinni hálfleikurinn var nýfarinn af stað þegar Robin van Persie kom Arsenal yfir. Gervinho hélt uppteknum hætti og gerði lítið úr Grétari með laglegum snúning en féll til jarðar í sömu andrá eftir tæklingu Grétars. Mark Clattenburg sem átti flottan leik lét leikinn halda áfram þar sem Ramsey náði boltanum strax og skilaði honum svo til Persie sem gerði virkilega vel áður en hann setti boltann í netið.

David Wheater var svo rekinn af velli á 55. mínútu fyrir að toga Walcott niður sem var kominn á harðasprett eins og svo oft áður. Clattenburg var ekki í vafa og sendi Wheater beint í sturtu. Eftir þetta var leikurinn algjörlega í höndum Arsenal og aðeins spurning um hversu stór sigurinn yrði. Jussi Jaaskelainen hélt reyndar markatölunni í lágmarki með afbragðs markvörslum og sá meðal annars við hörkuskoti frá Mikel Arteta. Bolton var reyndar nálægt því að jafna þegar þeir komust í skyndisókn en skot Chris Eagles olli Szczesny engum vandræðum.

Jaaskelainen sem hafði náð að halda Bolton inní leiknum var loksins sigraður en þá skoraði okkar besti leikmaður, Robin van Persie, sitt hundraðasta mark fyrir félagið. Walcott átti þá góðan sprett upp hægri vænginn og gaf boltann fyrir sem endaði í vinstri hælnum á Persie. Snyrtilegt mark í alla staði og Hollendingurinn meiðslahrjáði búinn að brjóta hundrað marka múrinn!

Ekki löngu seinna átti Alex Song glæsilega sendingu sem Paul Robinson náði ekki til og Walcott því allt í einu orðinn einn á móti marki. Walcott fór reyndar illa að ráði sínu og hreinlega ótrúlegt að hann hafi ekki skorað úr svona færi. Svo talar hann ekki um annað en að hann vilji vera fremsti framherjinn í liðinu en hann sýndi það og sannaði í þessu marktækifæri að hann hefur ekkert að gera þangað í bili. Ekki nóg með það þá lét Fabio Capello sig hverfa fljótlega eftir þetta.

Það var svo enginn annar en Alex Song sem veitti Bolton síðasta náðarhöggið í leiknum. Hann fékk þá sendingu frá Bacary Sagna og sýndi nokkuð lipra takta með boltann áður en hann smellti honum í markið. Fullkominn endir á þessum leik þar sem Alex Song, Robin van Persie og Aaron Ramsey áttu virkilega góðan dag. Vörnin hélt einnig hreinu sem var vel þegið enda markatalan ekki sú álitlegasta á töflunni.

Olympiacos kemur svo í heimsókn á miðvikudaginn næsta og setjum við Nallarar kröfu á þrjá punkta í þeim leik til að koma okkur almennilega í gang í þessum riðli.

Maður leiksins: Robin van Persie

Ungur nemur, gamall temur.
Ungur nemur, gamall temur. Nú munar aðeins 20 mörkum á milli þessara meistara! 


Þrír nýjir markaskorar komu Arsenal í 16-liða úrslitin

Arsenal tók á móti Shrewsbury í gærkvöldi og bar sigur af hólmi 3-1. Liðið samanstóð nokkrum reynsluboltum í bland við nýliða. Alex Chamberlain var einn þeirra og var víst maður leiksins að flestra mati en hann skoraði einmitt glæsilegt mark í seinni hálfleik.

Sagan segir að Arsenal hafi mátt teljast heppið að fara með 1-1 jafntefli inní búningsklefana í hálfleik. Shrewsbury tókst að komast yfir og héldu menn að enn eina ferðina væri Arsenal að fara að skíta upp á bak. Sem fyrr leit vörnin illa út og þá sér í lagi Johan Djourou. Bakverðirnir Carl Jenkinson og Kieran Gibbs sáu þó um að jafna leikinn en þá átti fyrrnefndur Carl glæsilega fyrirgjöf sem endaði á kollinum á Gibbs sem var þarna að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið í alvöru leik.

Í seinni hálfleik þreyttust leikmenn Shrewsbury og gekk Arsenal þá á lagið. Eins og áður sagði skoraði Chamberlain virkilega gott mark og verður spennandi að fylgjast með hans framgöngu í liðinu á næstu árum.

Það var svo hinn létt leikandi Ísraeli Yussi Benayoun sem gulltryggði góðan heimasigur á 79. mínútu með sínu fyrsta marki fyrir félagið eftir góðan undirbúning frá Gibbs og Ozyakub.

Ánægjulegt að vera komnir áfram í þessari keppni sem er gullið tækifæri til að gefa minni spámönnum séns og leyfa þeim að sýna sig og sanna.

Bolton kemur svo í heimsókn á laugardaginn og það er vonandi að menn séu tilbúnir að rífa sig upp úr ruglinu og hirða öll stigin sem þar verða í boði!

Mörkin úr leiknum.

http://www.101greatgoals.com/videodisplay/arsenal-shrewsbury-15436207/ 

 


Leikmenn Arsenal með fimm kvikindi á Ewood Park

Ykkar einlægi ritari hefði betur sleppt því að keyra til Randeberg (Noregi) í þeim tilgangi að ná seinni hálfleiknum í dag. Ég pantaði mér bjór og um leið og ég settist niður skoraði Alex Song líka þetta ömurlega sjálfsmark. Ekki veit ég hvað gekk á í fyrri hálfleik nema það að Gervinho og Arteta komust á blað sem er afar ánægjulegt. Yakubu átti svo snyrtilegt mark eins og Nígeríumanna er siður.

Spilamennska Arsenal var ekki svipur með sjón í seinni hálfleik og ekki var heppnin heldur á okkar bandi. Yakubu var fyrir það fyrsta rangstæður í sínu öðru marki og í endursýningu má sjá hve illa línuvörðurinn var staddur í því tilfelli. Bacary Sagna vék svo af velli vegna meiðsla fyrir Johan Djourou og þá fór heldur betur hrollur um gamla. Í Football Manager er Johan Djourou til að mynda með eldrauðan hnapp í hægri bakvarðarstöðunni. Lélegur varnarleikur var enn verri við komu hans. Hann náði sér meðal annars í gult spjald, átti eina verstu fyrirgjöf sem menn hafa séð í þessum heimi og hafði svo engan kraft í tæklingu sinni sem uppskar fjórða mark Blackburn.

Það eina jákvæða í þessum leik voru markaskorarar Arsenal. Gervinho skoraði eftir þriggja leikja bann, hinn vel greiddi Arteta skoraði gott mark og Chamakh sjálfur skoraði sitt fyrsta mark í langan tíma eftir glæsilega fyrirgjöf frá v. Persie. Mertesacker hefði svo endilega mátt skalla boltann inn þegar leikurinn var á enda og svo með smá heppni hefði Walcott getað fengið víti í blálokin.

Vandamál varnarinnar heldur því áfram og sakna ég sárlega Thomas Vermaelen en sem betur fer styttist í Belgann knáa.

Næsti leikur gegn Shrewsbury og finnst mér líklegt að eitthvað verði um róteringar í þeim leik.

Maður leiksins: Gervinho

Gervinho-and-Alex-Song-007
Arkitektarnir að fyrsta markinu. 


Jafntefli í Þýskalandi

Það var löngu vitað að BvB leikvangurinn yrði erfiðasti útivöllurinn í þessum riðli enda ein mesta gryfja sem fyrirfinnst í allri Evrópu. Menn fóru því nokkuð sáttir heim með 1-1 jafntefli í farteskinu.

Segja má að Dortmund hafi haft yfirhöndina allan leikinn og þá sérstaklega í seinni hálfleik. Mario Göetze sem átti virkilega góðan leik var aðal arkitektinn að sóknum Dortmund ásamt Kagawa sem var einnig hættulegur. Dortmund voru nálægt því að komast yfir snemma leiks þegar að Robert Lewandowski náði að komast framhjá Szczesny og átti aðeins skotið eftir en blessunarlega var Bacary Sagna mættur og hreinsaði frá.

Robin van Persie hefði átt að gera betur stuttu síðar eftir að hafa fengið snyrtilega sendingu frá Benayoun en fyrirliðinn tók sér alltof lítinn tíma til að gera mat úr færinu og skaut framhjá. Hann bætti reyndar upp fyrir það nokkru síðar. Lítið var í gangi í leiknum og varnarmenn Dortmund spiluðu boltanum á milli sín allt þangað til að v. Persie komst inní slappa sendingu og náði að stýra boltanum til Walcott. Persie tók á rás og fékk algjöra drauma sendingu frá Theo á milli varnarmanna Dortmund og kláraði svo færið með hægri sleggjunni sem þykir víst ekkert síðri en sú vinstri þessa dagana. Þannig var svo staðan þegar flautað var til hálfleiks.

Ef pressa Dortmund var einhver í fyrri hálfleik þá var hún enn meiri í þeim síðari. Göetze lék sem fyrr á alls oddi og bjó til færi eftir færi fyrir liðsfélaga sína. Þó mátti engu muna að Gervinho næði að drepa leikinn á 59. mínútu er hann komst einn í gegn en Weidenfeller var réttur maður á réttum stað og kom í veg fyrir fyrsta mark Gervinho fyrir Arsenal.

Níu mínútum fyrir leikslok voru Dortmund nálægt því að jafna leikinn eftir hornspyrnu frá Göetze. Boltinn barst þá til Subotic sem skaut af stuttu færi en einhvern veginn í ósköpunum náði Szczesny að verja með því að klemma boltann á milli fótanna.

Á 88. mínútu fengu Dortmund-liðar svo aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Spyrnan hafnaði í veggnum en féll svo beint fyrir fætur varamannsins Ivan Perisic sem gerði sér lítið fyrir og smellti knettinum í skeytin! Óverjandi fyrir Szczesny í markinu og loksins kom markið hjá Dortmund. Alltaf virðist vera nóg af plássi fyrir svona stórbrotin mörk hjá Arsenal og minnti þetta um margt á markið hans Tiote í 4-4 jafnteflinu við Newcastle fyrr á þessu ári.

Engu mátti svo muna að Dortmund tæki öll stigin þrjú þegar að Lewandowski komst í gegnum vörnina aðeins til að mæta frábærum Wojciech Szczesny sem kom í veg fyrir að Arsenal færu tómhentir heim. 1-1 jafntefli því niðurstaðan í þessum bráðfjöruga leik sem hefði getað endað allt öðruvísi. Arsenal menn fóru því líklega sáttir heim og einnig sáttir við að þessum leik sé nú lokið.

Nokkur aukaorð... 

Erfitt er að segja hver hafi verið maður leiksins. Szczesny stóð sig vel þegar á reyndi en átti að sjálfsögðu aldrei möguleika í skotið hans Perisic. Laurent Koscielny stóð sig sömuleiðis afar vel í vörninni og vann líklegast fleiri skallabolta heldur en sjálf himnalengjan Mertesacker. Alex Song barðist svo eins og ljón allan seinni hálfleikinn og sópaði eins og vön húsmóðir sóknir andstæðinganna. Hann fær mitt atkvæði að þessu sinni sökum þess að hann er meiri fjölskyldumaður en hinir tveir.

Annars verð ég að lýsa yfir áhyggjum mínum yfir Kieran Gibbs í þessum leik. Um leið og hann fékk boltann snéri hann við og gaf hann á Szczesny. Þetta gerði hann allavega sex sinnum í leiknum og sýndi fram á algjört getuleysi við að koma boltanum í spil. Þarna hefði kannski maður eins og Santos verið kjörinn í verkefnið og jafnvel hefði Gervinho ekki litið eins illa út fyrir vikið. Ímyndið ykkur martröðina fyrir varnarmenn Dortmund hefðu þeir þurft að hafa bæði áhyggjur af Gervinho og Santos sem elska að taka menn á og skilja þá eftir með áttavita í höndunum. Gefa Santos tækifærið gegn Blackburn um næsti helgi segi ég.

Maður leiksins: Alex Song

bvb
Svo mikil geðveiki!


Arsenal ósannfærandi í fyrsta sigrinum

Það hefur margt gengið á í herbúðum Arsenal eftir tapið stóra gegn Utd. seint í síðasta mánuði. Loksins voru fengnir til liðsins menn með reynslu og nokkra landsleiki á bakinu í þokkabót. Af þeim fimm leikmönnum sem komu fyrir lok gluggans voru tveir í byrjunarliði, þeir Mikel Arteta og Per Mertesacker og var Nallarinn orðinn vel spenntur fyrir leik.

Nallarinn sá fyrir sér öruggan 4-0 sigur en annað kom á daginn. Eftir nokkuð góða byrjun á leiknum tóku taugarnar völdin og Swansea menn komu sér í nokkur ákjósanleg færi. Besta færi Swansea í fyrri hálfleik var skot Danny Graham sem Szczesny varði frábærlega. Arsenal átti sín færi einnig, Mikel Arteta sýndi strax á fyrstu mínútu að hann er verðugur arftaki Fabregas þegar hann bjó til dauðafæri fyrir Aaron Ramsey sem brenndi vel af. Skaphundurinn Theo Walcott átti svo pot sem var á leið í markið en varnarmaður Swansea sá til þess að staðan héldist óbreytt með árangursríkum björgunarleiðangri.

Allt stefndi í markalausan fyrri hálfleik en Michael Vorm, markvörður Swansea, var ekki á því að láta það gerast. Walcott átti þá skot fyrir utan teig sem fór í varnarmann og allt stefndi í hornspyrnu. Vorm brást fljótur við og náði að handsama boltann áður en hann færi útaf. Honum lá ansi mikið á að koma boltanum aftur í leik og renndi boltanum í átt að Ángel Rangel sem snéri bakinu í hann. Það heppnaðist ekki betur en svo að boltinn hitti beint í hælinn á Rangel og kastaðist því aftur til baka. Arshavin var fljótur að átta sig (eins og svo margir í þessum leik) og skaut strax að marki og skoraði. Virkilega vel gert hjá litla-stóra Rússanum og ekkert sjálfgefið að skora úr færinu sem hann var í. Staðan því 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn fór fjörlega af stað en þá var Scott Sinclair næstum búinn að jafna leikinn með hörkuskoti í ofanverða slánna. Nokkrum mínútum síðar setti v. Persie boltann í tréverkið hinum megin á vellinum eftir glimrandi takta fyrir utan teiginn. Maroune Chamakh átti svo síðasta færi leiksins en þá kom Kieran Gibbs með drauma sendingu sem rataði beint á kollinn á Chamakh en því miður fór boltinn beint á Vorm. Chamakh heldur því áfram markaþurrð sinni fyrir Arsenal.

1-0 sigur staðreynd og nokkuð ljóst að sjálfstraustið er ekki í botni þessa dagana. Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að loksins er kominn maður í þetta lið sem bindur saman vörnina og sóknina með faglegum snertingum og enn betri sendingum. Ég er að sjálfsögðu að tala um Mikel Arteta sem virðist vera skapaður fyrir þetta Arsenal lið og nokkuð ljóst að Arsenal er í góðum málum nái hann að halda sér heilum.

Per Mertesacker þarfnast hinsvegar aðlögunar enda ekki vanur svona hraða og hörku. Nái hann að aðlagast vel og spila eins og hann hefur gert með landsliðinu þá hafa Arsenal tryggt sér varnarmann í heimsklassa.

Næsta verkefni er erfiður útileikur í Meistaradeildinni gegn Borussia Dortmund á þriðjudaginn og þá bjóðum við velkomna svörtu sauðina, Gervinho og Alex Song sem munu styrkja liðið án efa.

Maður leiksins: Mikel Arteta

Arteta


Andvökunætur framundan í herbúðum Arsenal

Það eru líklega margir stuðningsmenn Arsenal sem vildu óska þess að hafa fæðst blindir eftir hrollvekjuna sem fram fór í dag á Old Trafford leikvanginum.

Besti leikmaður tímabilsins hingað til, Thomas Vermaelen var ekki með vegna meiðsla sem hann hlaut líklega í leiknum gegn Udinese og sömuleiðis var Bacary Sagna fjarverandi vegna veikinda. Wenger þurfti því að ná í nokkra leikmenn úr varaliðinu til þess að fylla uppí afar þunnskipaðan leikmannahóp sinn og var því efnt til heljarinnar grillveislu í dag á Old Trafford.

Meðalaldurinn á bekknum var 21 ár en þar voru menn á borð við Gilles Sunu og maðurinn með þjála nafnið Oguzhan Ozyakub en hvorugir komu þó inná. Frakkinn ungi Francis Coquelin byrjaði sinn fyrsta leik í deildinni og spilaði í hlutverki varnarsinnaðs miðjumanns í staðinn fyrir blökkumennina blóðheitu Alex Song og Emmanuel Frimpong. Annars var liðið hefðbundið.

Það væri of tímafrekt að ræða leikinn í heild sinni og rifja upp öll mörkin sem við höfum allir séð nógu oft. Í staðinn ætla ég að koma með nokkra punkta hvernig að klúðra málunum gjörsamlega gegn rauðu djöflunum. 

Svona á að tapa 8-2 fyrir United.

  • Slepptu því að styrkja liðið.
  • Tryggðu þér lélegustu sjúkraþjálfarana á Englandi.
  • Láttu Djourou og Koscielny spila saman í vörninni.
  • Ekki kaupa mann í staðinn fyrir Clichy. Treystu frekar á hinn símeidda Gibbs.
  • Nú ef hann meiðist, notaðu þá Traore.
  • Seldu Eboue og fáðu til þín algjörlega óreyndan hægri bakstoppara.
  • Ekki kenna Szczesny að stilla upp vegg.
  • Leyfðu Frimpong að klára leikinn gegn Liverpool svo hann verði nú örugglega í banni gegn Utd.
  • Segðu við Rosicky um leið og hann kemur til Arsenal: Hér skjótum við ekki fyrir utan teig, við reynum að spila boltanum inní markið.
  • Pressaðu þannig á Ashley Young að hann fari á betri löppina.
  • Ekki jafna leikinn úr vítaspyrnu. Gefðu frekar boltann á De Gea.
  • Höldum uppteknum hætti og látum reka einn leikmann útaf í hverjum leik.
  • Haltu hálfleiksræður þínar á frönsku.
  • Og svo mætti lengi telja... 

Næstu þrír sólarhringar verða gríðarlega mikilvægir uppá framhaldið því að liðið þarf á styrkingu að halda. Liðið er veikara en á sama tíma í fyrra þar sem að ekki er búið að finna staðgengil fyrir Fabregas og enn vantar öruggan miðvörð með réttu líkamsbygginguna. Mér líst vel á að fá Gary Cahill og einnig Park Chu-Young frá S-Kóreu og vonandi detta þeir inn á næstu dögum.

Nallarar hafa sjaldan séð það svartara en þá er einmitt um að gera að styðja liðið sitt enn frekar.

(Skársti) Maður leiksins: Theo Walcott

Gary Cahill í rauðu
Þetta væri fögur sjón að mati Nallarans í næsta leik gegn Swansea.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Torfi Guðbrandsson
Torfi Guðbrandsson

Nallari síðan 1998. Meðlimur í Arsenal klúbbnum. Hef farið tvisvar á völlinn. Veikur fyrir leikmönnum með flotta hárgreiðslu.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Tónlistarspilari

Elvis Presley - The Wonder of You

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband