- - Hausmynd

-

Færsluflokkur: Deildabikarinn

Bitlausir framherjar orsökin að óverðskulduðu tapi

Manchester City kíkti í heimsókn á Emirates völlinn í gærkvöldi í deildarbikarnum. Þrátt fyrir að Mancini segðist stilla upp varaliði tefldi hann fram rándýru liði með þekktum manni í hverri einustu stöðu, kannski fyrir utan markmanninn. Arsene Wenger hinsvegar hefur úr aðeins þunnskipaðri hóp að moða og því áhugaverð viðureign í meira lagi.

Arsenal var betri aðilinn lungan af leiknum, á því liggur enginn vafi. Gríslingarnir þrír, Chamberlain, Frimpong og Coquelin stóðu sig gríðarlega vel á miðjunni hjá Arsenal og mega menn eins og Nigel de Jong og Owen Hargreaves muna fífil sinn fegurri eftir frammistöðu sína í gær. Squillaci átti óvenju góðan leik þrátt fyrir að þurfa að díla við menn eins og Dzeko og Aguero.

Það er þó einn vandi sem enn er ekki leystur hjá Arsenal og það er framherjastaðan. Vissulega höfum við hinn sjóðheita Robin van Persie en við vitum það vel að hann spilar ekki alla leiki. Þess vegna þarf að hafa góða menn til taks skyldi Persie meiðast einn daginn. Þá er ekki að finna þessa dagana. Chamakh hefur aldrei náð þeim væntingum sem til hans voru gerðar og Park Chu Young þarfnast aðlögunar. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir Arsenal sem hreinlega verður að styrkja þessa stöðu í janúar ef ekki á að fara illa.

Sóknarparið sýndi engin gæði fram á við í gær og mega líta upp til miklu yngri manns, Alex Chamberlain, sem var frískasti sóknarleikmaður Arsenal í gær og áttu varnarmenn City í miklum erfiðleikum með kauða. Hann hefði skorað stórglæsilegt mark en Pantilimon, sem átti skínandi leik, varði meistaralega frá honum.

Eftir að Arsenal hafði stjórnað leiknum allan seinni hálfleikinn skoraði City með skyndisókn eftir hornspyrnu hjá skyttunum. Virkilega sorglegt og óverðskuldað mark sem kostaði Arsenal leikinn. Að vísu fékk Chamakh dauðafæri í lokin en hann skortir alla greddu fyrir framan markið þessa dagana og spurning um að selja manninn aftur til Frakklands eftir áramót.

Þrátt fyrir tap geta leikmenn Arsenal (fyrir utan Park og Chamakh) gengið stoltir frá leiknum enda létu þeir rándýrt lið Manchester City líta illa út!

Það var svo greint frá því í fjölmiðlum að þeim Frimpong og Nasri hefði lent saman í göngunum eftir leik en Frimpong hefur verið málglaður í garð Nasri eftir að sá franski yfirgaf herbúðir Arsenal. Nasri á að hafa trompast er Frimpong afhenti honum nærbol sem á stóð "bench" en Nallarinn selur þá sögu ekki dýrari en hann keypti hana. Ekki kom til handalögmála þó en Nasri á að hafa blótað svakalega á frönsku sem varð til þess að miklar blæðingar hófust í eyrum Wengers.

Þar með hefur Frimpong tryggt sér nafnið sitt aftan á varatreyjuna sem Nallarinn ætlar að versla sér er hann fer á leik Arsenal og Everton nú í desember. 

Næsti leikur verður háður á heimavelli Wigan næstkomandi laugardag og geri ég algjöra kröfu á þrjú stig í þeim leik! 

Maður leiksins: Emmanuel Frimpong (fyrir magnað hugarfar sitt á vellinum)

Frimpong verus Nasri 
Arsenal hefur eignast sinn Balotelli.  


Arsenal í 8-liða úrslit þökk sé framlagi Arshavin

Arsenal komst í gær í 8-liða úrslit deildarbikarsins er þeir sigruðu Bolton 2-1 á Emirates leikvanginum.

Thomas Vermaelen snéri aftur eftir meiðsli og bar að sjálfsögðu fyrirliðabandið. Við hlið hans var Sebastien Squillaci sem var að leika sinn fyrsta leik á tímabilinu. Nico Yennaris þreytti svo frumraun sína með Arsenal er hann tók stöðu hægri bakvarðar. Annars var liðið nokkuð hefðbundið, blandað reynslu og ferskleika.

Fyrri hálfleikur fór fram að mestu á vallarhelmingi Bolton en þá áttu leikmenn Arsenal ágætis tilraunir að marki Bolton. Benayoun var nálægt því að skora eftir að hafa leikið Grétar Rafn sundur og saman en skotið fór rétt framhjá. Vermaelen átti svo þrumuskot úr aukaspyrnu en Adam Bogdan var vel á verði í markinu. Hann varði einnig vel frá Park sem átti nokkur skot að marki. Staðan þó markalaus í fyrri hálfleik og enn gat allt gerst.

Bolton mættu sprækari í seinni hálfleikinn og voru komnir yfir eftir aðeins tvær mínútur. Þar var að verki Fabrice Muamba en hann kemur einmitt úr akademíu Arsenal. Hann vann þá boltann af Frimpong og kom honum yfir á Darren Pratley sem fór nokkuð auðveldlega framhjá Yennaris í vörninni. Pratley lagði hann svo aftur út á Muamba sem skaut boltanum yfir þá Fabianski og Vermaelen og í netið. Bolton komið yfir og nú gátu leikmenn Arsenal nagað sig í handarbökin fyrir lélega nýtingu í fyrri hálfleik.

Þeir þurftu þó ekki að naga handarbökin lengi því að fimm mínútum síðar jafnaði Arshavin fyrir Arsenal eftir fallega sókn. Chamberlain átti þá háa og flotta sendingu á Benayoun á hægri kanti sem kom honum á Arshavin. Rússinn óð að marki Bolton og átti svo óvænt skot sem fór í gegnum lappir Zat Knight og framhjá Bogdan í markinu. Staðan orðin 1-1 og allt að gerast.

Aðeins þrem mínútum síðar kom Park Arsenal yfir með afar snyrtilegu marki. Arshavin bar þá boltann upp miðjuna og beið eftir að Park kæmi sér úr rangstöðunni. Hann sendi svo boltann á verðandi dátann sem skoraði líka þetta fallega mark. Markið minnti svolítið á markið hjá Freddie Ljungberg gegn Chelsea í FA-bikarnum fyrir mörgum árum síðan. Park þakkaði því Wenger traustið og sýndi honum að hann er tilbúinn í fleiri mínútur.

Bolton sótti stíft eftir þetta og reyndi að koma leiknum í framlengingu en án árangurs. Arsenal því komið í 8-liða úrslitin og nú er spennandi að sjá hvaða liði þeir mæta næst.

Maður leiksins: Andrey Arshavin

Ljungberg skorar gegn Chelsea.

 


Þrír nýjir markaskorar komu Arsenal í 16-liða úrslitin

Arsenal tók á móti Shrewsbury í gærkvöldi og bar sigur af hólmi 3-1. Liðið samanstóð nokkrum reynsluboltum í bland við nýliða. Alex Chamberlain var einn þeirra og var víst maður leiksins að flestra mati en hann skoraði einmitt glæsilegt mark í seinni hálfleik.

Sagan segir að Arsenal hafi mátt teljast heppið að fara með 1-1 jafntefli inní búningsklefana í hálfleik. Shrewsbury tókst að komast yfir og héldu menn að enn eina ferðina væri Arsenal að fara að skíta upp á bak. Sem fyrr leit vörnin illa út og þá sér í lagi Johan Djourou. Bakverðirnir Carl Jenkinson og Kieran Gibbs sáu þó um að jafna leikinn en þá átti fyrrnefndur Carl glæsilega fyrirgjöf sem endaði á kollinum á Gibbs sem var þarna að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið í alvöru leik.

Í seinni hálfleik þreyttust leikmenn Shrewsbury og gekk Arsenal þá á lagið. Eins og áður sagði skoraði Chamberlain virkilega gott mark og verður spennandi að fylgjast með hans framgöngu í liðinu á næstu árum.

Það var svo hinn létt leikandi Ísraeli Yussi Benayoun sem gulltryggði góðan heimasigur á 79. mínútu með sínu fyrsta marki fyrir félagið eftir góðan undirbúning frá Gibbs og Ozyakub.

Ánægjulegt að vera komnir áfram í þessari keppni sem er gullið tækifæri til að gefa minni spámönnum séns og leyfa þeim að sýna sig og sanna.

Bolton kemur svo í heimsókn á laugardaginn og það er vonandi að menn séu tilbúnir að rífa sig upp úr ruglinu og hirða öll stigin sem þar verða í boði!

Mörkin úr leiknum.

http://www.101greatgoals.com/videodisplay/arsenal-shrewsbury-15436207/ 

 


Höfundur

Torfi Guðbrandsson
Torfi Guðbrandsson

Nallari síðan 1998. Meðlimur í Arsenal klúbbnum. Hef farið tvisvar á völlinn. Veikur fyrir leikmönnum með flotta hárgreiðslu.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Tónlistarspilari

Elvis Presley - The Wonder of You

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband