- - Hausmynd

-

Færsluflokkur: Meistaradeildin

London > Manchester

Það er ekki á hverju ári sem að tvö lið frá Englandi detta úr keppni eftir riðlakeppni meistaradeildarinnar. Það er heldur ekki oft sem að þessi tvö lið koma frá Manchester borg. Það er því óneitanlega skrítin tilfinning að vera án Manchester United restina af þessu móti. 

Arsenal sýndi þó enga stjörnutakta í Grikklandi gegn Olympiacos í síðasta leik sínum. Að vísu var að meiru fyrir Olympiacos að keppa heldur en Arsenal. Þrátt fyrir það var leikurinn kjörið tækifæri fyrir þá leikmenn sem fá minna að spila að sanna sig fyrir Wenger. Þeir gerðu sér hinsvegar enga greiða með frammistöðu sinni og sýndu að þeir hafa ekkert að gera í fyrstu ellefu hjá Arsenal. Meira að segja báðir markverðirnir fengu að sýna hvers vegna þeir eru á eftir Szczesny í goggunarröðinni. 

Þar sem Nallarinn er að fara til London um helgina á leik Arsenal gegn Everton var hann frekar pirraður að sjá að Vermaelen og Santos í byrjunarliðinu. Santos varð fyrir meiðslum og verður frá í þrjár vikur sem þýðir það að Wenger mun að öllum líkindum spila með fjóra miðverði gegn Everton. Djourou, Mertesacker, Koscielny og Vermaelen eru líklegastir til að byrja þó að möguleiki sé á að Miquel taki vinstri bakvörðinn. 

Eini jákvæði punkturinn í Grikklandi á þriðjudagskvöld var markið hjá Benayoun sem er jafnvel nóg til að gefa honum nafnbótina "maður leiksins". Chamakh kassaði þá boltann niður á Benna eftir sendingu frá Miquel og gyðingurinn þrumaði knettinum í netið! 

Það var ekki mikið fleira sem fékk mann til að brosa. Chamberlain átti nokkra spretti upp hægri vænginn og Arshavin klúðraði góðu færi í byrjun. Allt kom fyrir ekki og verðskuldað tap fyrir spræku liði Olympiacos staðreynd. 

Næst er það heimaleikur gegn Everton en þar verður Nallarinn einmitt meðal áhorfenda. Það verður mikið húllumhæ í kringum leikinn en það á að afhjúpa þrjár styttur til heiðurs Herbert Chapman, Tony Adams og Thierry Henry sem verður einmitt heiðursgestur á leiknum. Boðið verður uppá kökur og annað bakkelsi og því hefur Nallarinn svo sannarlega dottið í lukkupottinn!

Þetta verður í þriðja skipti sem Nallarinn fer á leik og vonast hann eftir sigri þar sem hann hefur bæði upplifað jafntefli og tap. Það verður því mikil gleði hjá Nallaranum nái Arsenal að sigra Everton í 125 ára afmælisveislunni sinni.  

 

Mikel Persie
Sem betur fer eru þessir tveir orðnir samherjar. 
 

 

 


Wigan að baki og lykilmenn hvíldir í kvöld

Wigan 0 - 4 Arsenal 

Það er kannski réttast að byrja á leiknum sem fór fram um helgina en þá heimsótti Arsenal DW leikvanginn sem oft hefur reynst skyttunum erfiður.

Arsenal var heppið að lenda ekki undir á upphafs mínútunum en þá brenndi Jordi Gomez af í dauðafæri. Eftir 15 mínútna leik voru leikmenn Arsenal komnir með góð tök á leiknum og það var aldrei spurning um hvor megin sigurinn myndi lenda. Að þessu sinni voru skoruð fjögur mörk af jafnmörgum markaskorurum. Arteta, Vermaelen, Gervinho og Persie sáu um markaskorun þennan daginn og ánægjulegt að sjá svo marga á blaði. Að halda hreinu á útivelli er svo alltaf skemmtilegt og ekki eyðilagði fyrir að Fulham sem Arsenal átti í erfiðleikum með þar síðustu helgi skyldu taka stig af Liverpool í gær.

Maður leiksins: Robin van Persie 

En þá að leiknum í kvöld. Þar sem að Arsenal er öruggt með fyrsta sæti í riðlinum hefur Arséne Wenger ákveðið að hvíla lykilmenn og notast við sömu leikmenn og kepptu við Man City í síðustu viku. Verkefnið er ekki af verri endanum en það er útileikur gegn Olympiacos sem eiga enn möguleika að komast upp úr riðlinum með hagstæðum úrslitum í kvöld. Þetta er að mínu mati mjög jákvætt því að það er ljóst að leikmenn Arsenal verða að hafa fyrir leiknum í kvöld og geta ekki búist við neinum æfingabolta. Góð og gild reynsla fyrir þá ungu og kjörið tækifæri fyrir aðra farþega að sýna hvað í þeim býr í kvöld. 

Svona spái ég byrjunarliðinu í kvöld. 

Fabianski

Yennaris Squillaci Djoruou Miquel

Frimpong  Coquelin

Chamberlain Benayoun     Park

Chamakh

Eina sem ég er ekki alveg viss með er hvort að Arshavin fái að byrja á kostnað annað hvort Park eða Chamakh en þessir þrír hafa verið ansi slakir það sem af er tímabili. Park hefur að vísu afsökun en hann hefur ekki spilað eins marga leiki og hinir tveir.

Nallarinn er ekki í vafa um að strákarnir geti náð jákvæðum úrslitum í kvöld eftir glæsilega frammistöðu gegn Man City. Hinsvegar þarf að koma tuðrunni í markið og það er spurning hver ætlar að sjá um það í kvöld. 

Áfram Arsenal! 

Alex-Oxlade-Chamberlain
Alex skoraði frábært mark í fyrri viðureign liðanna á Emirates.
Hvað gerir hann í kvöld?
 


Robin van Persie stöðvar ekki á gulu

Nallarinn hefur verið vant við látinn síðustu vikuna. Hann sá leikinn gegn Norwich á Akureyri en Dortmund leikinn sá hann á Beverly's barnum í Noregi. Það voru heilir fjórir gestir á AK en stútfullur pöbb í Noregi enda trekktu stórleikirnir að. Við byrjum á Norwich.

Norwich 1 - 2 Arsenal

Það var í raun fáránlegt að leikar hafi endað 1-2 á Carrow Road en allt er víst hægt í fótbolta. Á 16. mínútu gaus upp rosaleg skítalykt en hún kom alla leið frá Þýskalandi. Mertesacker gerði þá í buxurnar er hann hleypti Morison fram fyrir sig úr stöðu sem virtist vera örugg. Sá þýski á enn greinilega langt í land með að vera sá miðvörður sem okkur vantaði. Robin van Persie sá um að bjarga deginum. Sendingarnar fékk hann frá Theo Walcott og Alex Song í sitthvorum hálfleiknum. Sigurinn hefði þó mátt vera stærri en það vill vera fjandi erfitt að keppa við nýliða á útivelli sem gefa sig alla í verkefnið.

Maður leiksins: Robin van Persie 

 

Arsenal 2 - 1 Borussia Dortmund

Það var vitað fyrir leik að með sigri myndi Arsenal tryggja sig áfram í keppninni. Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill en Dortmund þurfti að gera tvær breytingar á liði sínu vegna meiðsla. Mario Götze fór af velli vegna meiðsla og voru það jákvæð tíðindi fyrir Arsenal. Ég held að Arsenal hafi átt eitt skot á rammann í fyrri hálfleik og maður spurði sig í hálfleik hvort að þeir ætluðu að bjóða upp á annað markalausa jafnteflið í röð (0-0 gegn Marseille í seinasta leik).

Seinni hálfleikur fór fjörlega af stað og gerðu Dortmund sig líklega til að skora. Markið kom þó á hinum enda vallarins þökk sé frábæru einstaklingsframtaki hjá meistara Song. Það var ekkert að gerast er Song ákvað að búa til fyrsta mark leiksins. Hann sólaði þá hvern Dortmund manninn á fætur öðrum og sendi boltann beint á kollinn á van Persie og það þýddi aðeins eitt, mark! 

Persie var svo aftur á ferðinni á 86. mínútu og gulltryggði þá Arsenal sigurinn. Mikel Arteta tók þá hornspyrnu sem Vermaelen fleytti áfram með höfði sínu og endaði boltinn hjá Persie sem átti ekki í erfiðleikum með að skora frekar en fyrri daginn. Dortmund minnkaði muninn í uppbótartíma sem var í raun algjör óþarfi enda hefði Frank de Bleeckere dómari átt að vera búinn að flauta leikinn af. En það þýddi ekki að pirra sig á því enda leikurinn yfirstaðinn.

Olympiacos sigraði svo í Frakklandi sem þýðir það að Arsenal endar í fyrsta sæti riðilsins og getur því hvílt menn í síðasta leik sem er einmitt gegn þeim grísku. Væri þá gaman að sjá menn eins og Chamberlain, Park og jafnvel Miyaichi fá tækifærið í byrjunarliði.

Maður leiksins: Alex Song 

Tom Cruise
Tom Cruise fékk tækifærið gegn Olympiacos fyrir 2 árum. Hann er
nú að leita sér að félagi. Breiðablik, okkur vantar bakvörð!


Engin mörk fundust á lagernum gegn Marseille

Eftir markasúpu helgarinnar á Stamford Bridge var boðið uppá markalaust jafntefli á Emirates leikvanginum í gær er Arsenal tók á móti Marseille.

Það vakti mikla athygli er Wenger ákvað að taka Robin van Persie úr liðinu og henda Park Chu Young inná í staði. Auðvitað þurfa menn sína hvíld en í svona mikilvægum leik verður að spila á bestu mönnunum því með sigri hefði Arsenal getað tryggt sig áfram í keppninni. Carl Jenkinson og Thomas Vermaelen komu svo inní liðið á kostnað Johan Djourou og Laurent Koscielny og nú loksins sáu Arsenal stuðningsmenn Mertesacker og Vermaelen hlið við hlið í vörninni.

Marseille mættu einbeittir til leiks og pressuðu vel til að byrja með en Arsenal komst svo meira og meira inní leikinn eftir því sem leið á hann. Mikið var um efnilegar sóknir en síðasta sendingin var að klikka trekk í trekk. Besta færið fékk líklega Aaron Ramsey en hann ákvað að bíða með skotið sitt alveg þangað til að varnarmaður komst fyrir hann og klúðraði þar með úrvals færi.

Ekkert gekk að ógna marki Marseille eftir þetta en Robin van Persie komst næst því að skora en hann kom inná fyrir Park sem virkaði ekki tilbúinn í verkefnið. Persie reyndi þá að chippa yfir Mandanda en því miður var ekki nógur kraftur í skotinu og því lítið mál fyrir frakkann að handsama knöttinn.

Þeir frönsku virkuðu einnig sprækir fram á við en náðu ekki að brjóta ísinn líkt og Arsenal og því var niðurstaðan markalaust jafntefli og bæði lið í þokkalegri stöðu fyrir framhaldið. Marseille hélt þar með hreinu enn einu sinni og hafa hingað til aðeins leyft Aaron Ramsey að skora hjá sér.

Fyrir leikina við Marseille sagðist Wenger vera sáttur með fjögur stig og líklega yrði það nóg til þess að enda fyrir ofan Marseille í töflunni. Við skulum vona að það rætist en framundan eru erfiðir leikir gegn Dortmund og Olympiacos sem vilja eflaust eyðileggja evrópudrauma Arsenal.

Staðan í riðlinum

1. Arsenal - 8
2. Marseille - 7
3. Dortmund - 4
4. Olympiacos - 3

Maður leiksins: Thomas Vermaelen

Thomas Vermaelen

Thomas Vermaelen á góðri stund með fyrsta bikarinn á ferlinum.


Dramatískur endir í Frakklandi

Það var fátt um dýrðir í leik Arsenal og Marseille í gærkvöldi í meistaradeildinni. Liðin sköpuðu lítið af færum en það voru þá helst Loic Remy og Lucho Gonzalez sem voru nálægt því að skora. Theo Walcott fékk kjörið tækifæri til að skora eftir mistök hjá Alou Diarra í vörninni en Steve Mandanda var vel á verði í markinu.

Arsenal tókst svo loksins að brjóta ísinn en það gerðu þeir í uppbótartíma. Þá geystist Johan Djourou upp kantinn og átti óvenju góða fyrirgjöf fyrir markið sem líklega var ætluð Gervinho. Sem betur fer tókst honum þó ekki að taka boltann niður þar sem að Aaron Ramsey var mættur aðeins utar. Ramsey fékk nógan tíma til að athafna sig og afgreiddi boltann snyrtilega í netið framhjá Mandanda.

Nallarinn á annars erfitt með að gera upp við sig hver var maður leiksins í gær. Vörnin var nokkuð örugg ásamt Alex Song og hafði Szczesny það býsna náðugt í rammanum. Miðjan var hinsvegar slöpp og þá voru Theo Walcott og Andrey Arshavin sérstaklega slappir. Theo Walcott nýtist lítið sem ekki neitt á hægri kantinum og Arshavin virðist vera orðinn of gamall til að byrja leiki. Robin van Persie fékk svo litla sem enga þjónustu í leiknum.

Aaron Ramsey fær þann heiður að vera maður leiksins að þessu sinni enda skoraði hann þetta mikilvæga mark sem reddaði kvöldinu fyrir alla þá sem tengjast Arsenal á eitthvern máta.

Maður leiksins: Aaron Ramsey 

Ramsey Marseille

Greinilega þungu fargi af mönnum létt!
 


Jafntefli í Þýskalandi

Það var löngu vitað að BvB leikvangurinn yrði erfiðasti útivöllurinn í þessum riðli enda ein mesta gryfja sem fyrirfinnst í allri Evrópu. Menn fóru því nokkuð sáttir heim með 1-1 jafntefli í farteskinu.

Segja má að Dortmund hafi haft yfirhöndina allan leikinn og þá sérstaklega í seinni hálfleik. Mario Göetze sem átti virkilega góðan leik var aðal arkitektinn að sóknum Dortmund ásamt Kagawa sem var einnig hættulegur. Dortmund voru nálægt því að komast yfir snemma leiks þegar að Robert Lewandowski náði að komast framhjá Szczesny og átti aðeins skotið eftir en blessunarlega var Bacary Sagna mættur og hreinsaði frá.

Robin van Persie hefði átt að gera betur stuttu síðar eftir að hafa fengið snyrtilega sendingu frá Benayoun en fyrirliðinn tók sér alltof lítinn tíma til að gera mat úr færinu og skaut framhjá. Hann bætti reyndar upp fyrir það nokkru síðar. Lítið var í gangi í leiknum og varnarmenn Dortmund spiluðu boltanum á milli sín allt þangað til að v. Persie komst inní slappa sendingu og náði að stýra boltanum til Walcott. Persie tók á rás og fékk algjöra drauma sendingu frá Theo á milli varnarmanna Dortmund og kláraði svo færið með hægri sleggjunni sem þykir víst ekkert síðri en sú vinstri þessa dagana. Þannig var svo staðan þegar flautað var til hálfleiks.

Ef pressa Dortmund var einhver í fyrri hálfleik þá var hún enn meiri í þeim síðari. Göetze lék sem fyrr á alls oddi og bjó til færi eftir færi fyrir liðsfélaga sína. Þó mátti engu muna að Gervinho næði að drepa leikinn á 59. mínútu er hann komst einn í gegn en Weidenfeller var réttur maður á réttum stað og kom í veg fyrir fyrsta mark Gervinho fyrir Arsenal.

Níu mínútum fyrir leikslok voru Dortmund nálægt því að jafna leikinn eftir hornspyrnu frá Göetze. Boltinn barst þá til Subotic sem skaut af stuttu færi en einhvern veginn í ósköpunum náði Szczesny að verja með því að klemma boltann á milli fótanna.

Á 88. mínútu fengu Dortmund-liðar svo aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Spyrnan hafnaði í veggnum en féll svo beint fyrir fætur varamannsins Ivan Perisic sem gerði sér lítið fyrir og smellti knettinum í skeytin! Óverjandi fyrir Szczesny í markinu og loksins kom markið hjá Dortmund. Alltaf virðist vera nóg af plássi fyrir svona stórbrotin mörk hjá Arsenal og minnti þetta um margt á markið hans Tiote í 4-4 jafnteflinu við Newcastle fyrr á þessu ári.

Engu mátti svo muna að Dortmund tæki öll stigin þrjú þegar að Lewandowski komst í gegnum vörnina aðeins til að mæta frábærum Wojciech Szczesny sem kom í veg fyrir að Arsenal færu tómhentir heim. 1-1 jafntefli því niðurstaðan í þessum bráðfjöruga leik sem hefði getað endað allt öðruvísi. Arsenal menn fóru því líklega sáttir heim og einnig sáttir við að þessum leik sé nú lokið.

Nokkur aukaorð... 

Erfitt er að segja hver hafi verið maður leiksins. Szczesny stóð sig vel þegar á reyndi en átti að sjálfsögðu aldrei möguleika í skotið hans Perisic. Laurent Koscielny stóð sig sömuleiðis afar vel í vörninni og vann líklegast fleiri skallabolta heldur en sjálf himnalengjan Mertesacker. Alex Song barðist svo eins og ljón allan seinni hálfleikinn og sópaði eins og vön húsmóðir sóknir andstæðinganna. Hann fær mitt atkvæði að þessu sinni sökum þess að hann er meiri fjölskyldumaður en hinir tveir.

Annars verð ég að lýsa yfir áhyggjum mínum yfir Kieran Gibbs í þessum leik. Um leið og hann fékk boltann snéri hann við og gaf hann á Szczesny. Þetta gerði hann allavega sex sinnum í leiknum og sýndi fram á algjört getuleysi við að koma boltanum í spil. Þarna hefði kannski maður eins og Santos verið kjörinn í verkefnið og jafnvel hefði Gervinho ekki litið eins illa út fyrir vikið. Ímyndið ykkur martröðina fyrir varnarmenn Dortmund hefðu þeir þurft að hafa bæði áhyggjur af Gervinho og Santos sem elska að taka menn á og skilja þá eftir með áttavita í höndunum. Gefa Santos tækifærið gegn Blackburn um næsti helgi segi ég.

Maður leiksins: Alex Song

bvb
Svo mikil geðveiki!


Naumur sigur á Udinese & Eboue farinn

Fyrri leikur liðanna í undankeppni Meistaradeildarinnar fór fram á Emirates í kvöld þar sem Arsenal bar 1-0 sigur úr bítum. Bæði lið nokkuð vængbrotin eftir sumarið en margir lykilmenn eru horfnir af braut þó aðallega hjá Udinese. Hjá Arsenal spiluðu þó leikbönn líka inní en Persie, Nasri og Wenger tóku allir út bann.

Tvær breytingar voru gerðar á liðinu en Chamakh og Walcott komu inn fyrir Persie og Arshavin. Ég verð að lýsa yfir óánægju minni með hann Chamakh greyið en ljóst er að Arsenal verður í vondum málum ef þeir missa Persie í meiðsli sem af reynslunni að dæma ætti að vera afar líklegt. Þá hafa Arsenal til taks hinn málglaða Bendtner (allavega ennþá) og Chamakh þó að Walcott og Gervinho eigi að geta leyst þessar stöður. Vonandi rífur Wenger upp veskið og splæsir í einn framherja sem er jafnvel kominn með smá gras á flötinn.

Það tók Arsenal aðeins fjórar mínútur að komast yfir og var þar að verki Theo Walcott eftir glæsilegt samspil á milli Chamakh, Sagna og Ramsey sem setti hann svo snyrtilega fyrir markið og ekki annað hægt en að skora. Því miður var þetta eina sóknin af þessu tagi í leiknum en leikmenn Arsenal virtust afar hugmyndasnauðir fram á við og greinilegt að mikill söknuður er í leikmönnum á borð við Fabregas, Nasri, Persie og Jack Wilshere. Allt annað var þó að sjá til Udinese á köflum og virtust þeir vera líklegri til að jafna heldur en Arsenal að bæta við. Má þá helst nefna til sögunnar aukaspyrnur Di Natale í sitthvorum hálfleiknum og ævintýralegur sprettur Armero þar sem Szczesny gerði vel í markinu. En vörnin stóð plikt sína og hélt hreinu sem eru ánægjulegar fréttir fyrir okkur Arsenal menn og má að mörgu leyti þakka innkomu Thomas Vermaelen aftur í liðið sem tók sig afar vel út sem fyrirliði og að mínum dómi ætti að sinna þeirri skyldu hér eftir.

1-0 sigur því staðreynd og ljóst er að eftir Arsenal bíður erfiður leikur á útivelli gegn spræku liði Udinese. Þar fáum við þó til baka van Persie og jafnvel einhverja fleiri hressa stráka.

Maður leiksins: Bacary Sagna

Leikurinn er þó ekki það eina sem þykir fréttnæmt í dag en Emmanuel Eboue kvaddi okkur stuðningsmennina í dag og hélt til Tyrklands þar sem kauði ætlar að spreyta sig með mönnum á borð við Colin-Kazim Richards og Johan Elmander í Galatasaray. Eboue var hvers manns hugljúfi, hvort sem það voru samherjar, mótherjar eða stuðningsmenn. Ófáar treyjurnar seldust með nafni hans og númeri og mættu stuðningsmenn með borða á Barcelona leiki þar sem stóð "We didn't come to see Messi, we came to see Eboue". Annars stóð Eboue sig best árið 2006 þegar hann var hluti af vörninni sem hélt 10 sinnum hreinu á leiðinni í úrslitin í Meistaradeildinni. Hann afrekaði einnig að koma inná gegn Wigan en var tekinn útaf eftir 20 mínútna leik vegna lélegrar frammistöðu.

Eboue verður sárt saknað í klefanum og einnig á vellinum en eftir afdrifarík mistök hans gegn Liverpool á seinustu leiktíð var kominn tími á hann. Galatasaray verður nú mitt lið í Tyrklandi og aldrei að vita nema maður fjárfesti í einni Eboue treyju.


Höfundur

Torfi Guðbrandsson
Torfi Guðbrandsson

Nallari síðan 1998. Meðlimur í Arsenal klúbbnum. Hef farið tvisvar á völlinn. Veikur fyrir leikmönnum með flotta hárgreiðslu.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Tónlistarspilari

Elvis Presley - The Wonder of You

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband