- - Hausmynd

-

London > Manchester

Það er ekki á hverju ári sem að tvö lið frá Englandi detta úr keppni eftir riðlakeppni meistaradeildarinnar. Það er heldur ekki oft sem að þessi tvö lið koma frá Manchester borg. Það er því óneitanlega skrítin tilfinning að vera án Manchester United restina af þessu móti. 

Arsenal sýndi þó enga stjörnutakta í Grikklandi gegn Olympiacos í síðasta leik sínum. Að vísu var að meiru fyrir Olympiacos að keppa heldur en Arsenal. Þrátt fyrir það var leikurinn kjörið tækifæri fyrir þá leikmenn sem fá minna að spila að sanna sig fyrir Wenger. Þeir gerðu sér hinsvegar enga greiða með frammistöðu sinni og sýndu að þeir hafa ekkert að gera í fyrstu ellefu hjá Arsenal. Meira að segja báðir markverðirnir fengu að sýna hvers vegna þeir eru á eftir Szczesny í goggunarröðinni. 

Þar sem Nallarinn er að fara til London um helgina á leik Arsenal gegn Everton var hann frekar pirraður að sjá að Vermaelen og Santos í byrjunarliðinu. Santos varð fyrir meiðslum og verður frá í þrjár vikur sem þýðir það að Wenger mun að öllum líkindum spila með fjóra miðverði gegn Everton. Djourou, Mertesacker, Koscielny og Vermaelen eru líklegastir til að byrja þó að möguleiki sé á að Miquel taki vinstri bakvörðinn. 

Eini jákvæði punkturinn í Grikklandi á þriðjudagskvöld var markið hjá Benayoun sem er jafnvel nóg til að gefa honum nafnbótina "maður leiksins". Chamakh kassaði þá boltann niður á Benna eftir sendingu frá Miquel og gyðingurinn þrumaði knettinum í netið! 

Það var ekki mikið fleira sem fékk mann til að brosa. Chamberlain átti nokkra spretti upp hægri vænginn og Arshavin klúðraði góðu færi í byrjun. Allt kom fyrir ekki og verðskuldað tap fyrir spræku liði Olympiacos staðreynd. 

Næst er það heimaleikur gegn Everton en þar verður Nallarinn einmitt meðal áhorfenda. Það verður mikið húllumhæ í kringum leikinn en það á að afhjúpa þrjár styttur til heiðurs Herbert Chapman, Tony Adams og Thierry Henry sem verður einmitt heiðursgestur á leiknum. Boðið verður uppá kökur og annað bakkelsi og því hefur Nallarinn svo sannarlega dottið í lukkupottinn!

Þetta verður í þriðja skipti sem Nallarinn fer á leik og vonast hann eftir sigri þar sem hann hefur bæði upplifað jafntefli og tap. Það verður því mikil gleði hjá Nallaranum nái Arsenal að sigra Everton í 125 ára afmælisveislunni sinni.  

 

Mikel Persie
Sem betur fer eru þessir tveir orðnir samherjar. 
 

 

 


Wigan að baki og lykilmenn hvíldir í kvöld

Wigan 0 - 4 Arsenal 

Það er kannski réttast að byrja á leiknum sem fór fram um helgina en þá heimsótti Arsenal DW leikvanginn sem oft hefur reynst skyttunum erfiður.

Arsenal var heppið að lenda ekki undir á upphafs mínútunum en þá brenndi Jordi Gomez af í dauðafæri. Eftir 15 mínútna leik voru leikmenn Arsenal komnir með góð tök á leiknum og það var aldrei spurning um hvor megin sigurinn myndi lenda. Að þessu sinni voru skoruð fjögur mörk af jafnmörgum markaskorurum. Arteta, Vermaelen, Gervinho og Persie sáu um markaskorun þennan daginn og ánægjulegt að sjá svo marga á blaði. Að halda hreinu á útivelli er svo alltaf skemmtilegt og ekki eyðilagði fyrir að Fulham sem Arsenal átti í erfiðleikum með þar síðustu helgi skyldu taka stig af Liverpool í gær.

Maður leiksins: Robin van Persie 

En þá að leiknum í kvöld. Þar sem að Arsenal er öruggt með fyrsta sæti í riðlinum hefur Arséne Wenger ákveðið að hvíla lykilmenn og notast við sömu leikmenn og kepptu við Man City í síðustu viku. Verkefnið er ekki af verri endanum en það er útileikur gegn Olympiacos sem eiga enn möguleika að komast upp úr riðlinum með hagstæðum úrslitum í kvöld. Þetta er að mínu mati mjög jákvætt því að það er ljóst að leikmenn Arsenal verða að hafa fyrir leiknum í kvöld og geta ekki búist við neinum æfingabolta. Góð og gild reynsla fyrir þá ungu og kjörið tækifæri fyrir aðra farþega að sýna hvað í þeim býr í kvöld. 

Svona spái ég byrjunarliðinu í kvöld. 

Fabianski

Yennaris Squillaci Djoruou Miquel

Frimpong  Coquelin

Chamberlain Benayoun     Park

Chamakh

Eina sem ég er ekki alveg viss með er hvort að Arshavin fái að byrja á kostnað annað hvort Park eða Chamakh en þessir þrír hafa verið ansi slakir það sem af er tímabili. Park hefur að vísu afsökun en hann hefur ekki spilað eins marga leiki og hinir tveir.

Nallarinn er ekki í vafa um að strákarnir geti náð jákvæðum úrslitum í kvöld eftir glæsilega frammistöðu gegn Man City. Hinsvegar þarf að koma tuðrunni í markið og það er spurning hver ætlar að sjá um það í kvöld. 

Áfram Arsenal! 

Alex-Oxlade-Chamberlain
Alex skoraði frábært mark í fyrri viðureign liðanna á Emirates.
Hvað gerir hann í kvöld?
 


Bitlausir framherjar orsökin að óverðskulduðu tapi

Manchester City kíkti í heimsókn á Emirates völlinn í gærkvöldi í deildarbikarnum. Þrátt fyrir að Mancini segðist stilla upp varaliði tefldi hann fram rándýru liði með þekktum manni í hverri einustu stöðu, kannski fyrir utan markmanninn. Arsene Wenger hinsvegar hefur úr aðeins þunnskipaðri hóp að moða og því áhugaverð viðureign í meira lagi.

Arsenal var betri aðilinn lungan af leiknum, á því liggur enginn vafi. Gríslingarnir þrír, Chamberlain, Frimpong og Coquelin stóðu sig gríðarlega vel á miðjunni hjá Arsenal og mega menn eins og Nigel de Jong og Owen Hargreaves muna fífil sinn fegurri eftir frammistöðu sína í gær. Squillaci átti óvenju góðan leik þrátt fyrir að þurfa að díla við menn eins og Dzeko og Aguero.

Það er þó einn vandi sem enn er ekki leystur hjá Arsenal og það er framherjastaðan. Vissulega höfum við hinn sjóðheita Robin van Persie en við vitum það vel að hann spilar ekki alla leiki. Þess vegna þarf að hafa góða menn til taks skyldi Persie meiðast einn daginn. Þá er ekki að finna þessa dagana. Chamakh hefur aldrei náð þeim væntingum sem til hans voru gerðar og Park Chu Young þarfnast aðlögunar. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir Arsenal sem hreinlega verður að styrkja þessa stöðu í janúar ef ekki á að fara illa.

Sóknarparið sýndi engin gæði fram á við í gær og mega líta upp til miklu yngri manns, Alex Chamberlain, sem var frískasti sóknarleikmaður Arsenal í gær og áttu varnarmenn City í miklum erfiðleikum með kauða. Hann hefði skorað stórglæsilegt mark en Pantilimon, sem átti skínandi leik, varði meistaralega frá honum.

Eftir að Arsenal hafði stjórnað leiknum allan seinni hálfleikinn skoraði City með skyndisókn eftir hornspyrnu hjá skyttunum. Virkilega sorglegt og óverðskuldað mark sem kostaði Arsenal leikinn. Að vísu fékk Chamakh dauðafæri í lokin en hann skortir alla greddu fyrir framan markið þessa dagana og spurning um að selja manninn aftur til Frakklands eftir áramót.

Þrátt fyrir tap geta leikmenn Arsenal (fyrir utan Park og Chamakh) gengið stoltir frá leiknum enda létu þeir rándýrt lið Manchester City líta illa út!

Það var svo greint frá því í fjölmiðlum að þeim Frimpong og Nasri hefði lent saman í göngunum eftir leik en Frimpong hefur verið málglaður í garð Nasri eftir að sá franski yfirgaf herbúðir Arsenal. Nasri á að hafa trompast er Frimpong afhenti honum nærbol sem á stóð "bench" en Nallarinn selur þá sögu ekki dýrari en hann keypti hana. Ekki kom til handalögmála þó en Nasri á að hafa blótað svakalega á frönsku sem varð til þess að miklar blæðingar hófust í eyrum Wengers.

Þar með hefur Frimpong tryggt sér nafnið sitt aftan á varatreyjuna sem Nallarinn ætlar að versla sér er hann fer á leik Arsenal og Everton nú í desember. 

Næsti leikur verður háður á heimavelli Wigan næstkomandi laugardag og geri ég algjöra kröfu á þrjú stig í þeim leik! 

Maður leiksins: Emmanuel Frimpong (fyrir magnað hugarfar sitt á vellinum)

Frimpong verus Nasri 
Arsenal hefur eignast sinn Balotelli.  


Sjaldséð mistök hjá Vermaelen og þreytan farin að segja til sín

Mikið leikjaálag virðist vera segja til sín miðað við leikinn í gær og má búast við miklum breytingum í byrjunarliðinu gegn Manchester City næsta þriðjudag. Það var kjörið tækifæri að saxa aðeins á forskot efstu liðanna sérstaklega þar sem að Man Utd. og Newcastle gerðu jafntefli í kolvitlausum leik í gær. 

Andstæðingarnir í gær voru Fulham sem hafa átt ansi erfitt uppdráttar á þessu tímabili þrátt fyrir ágætis leikmannahóp. Maður gerði því kröfu um sigur á heimavelli en allt kom fyrir ekki og jafntefli niðurstaðan eftir að Vermaelen hafði skorað í sitthvort markið í seinni hálfleik.

Það er ekki hægt að segja að leikmenn hafi verið frískir í gær nema kannski Theo Walcott sem var maður leiksins að mati Nallarans. Andrey Arshavin byrjaði í gær á kostnað Gervinho og miðað við spilamennsku hans í gær virðist hann vera búinn á því. Það hefði alveg mátt hvíla Aaron Ramsey og fleiri í liðinu en breiddin er líklega ekki nógu góð í herbúðum Arsenal akkúrat núna sem er mikið áhyggjuefni. 

Góðu fréttirnar eru kannski þær að Abou Diaby er að snúa aftur eftir meiðsli en það er líklega ekki spurning um hvort heldur hvenær hann meiðist að nýju. Jack Wilshere verður ekki klár fyrr en á næsta ári svo miðjan er ansi veik þessa stundina (ef einhver meiðist). Að mínu mati hefði alveg mátt sleppa því að lána Henri Lansbury til West Ham enda alveg hægt að nota drenginn í leikjum sem þessum. Ég meina Liverpool er að nota Jordan Henderson og mér sýnist hann ekki vera mörgum klössum fyrir ofan Lansbury.

Í janúar þyrfti helst að losa sig við farþega í liðinu eins og Chamack, Arshavin og Squillaci og versla inn í staðinn. Hvaða leikmenn er erfitt að segja en allavega leikmenn með gæði.

En það eru nokkrir leikir sem þarf að huga að áður og nú næst er það seðlaveldið frá Manchester. Reikna má með að Samir Nasri verði í hóp hjá City og verður gaman að fylgjast með kauða á gamla heimavelli sínum. Wenger ætlar að halda uppteknum hætti með blöndu af reynslu og kjúklingum. 

Vonum að byrjunarliðsmennirnir hvílist vel um helgina svo við getum haldið áfram góðu gengi.

Að lokum vil ég minnast á andlát Gary Speed en hann fannst látinn á heimili sínu í nótt en hann svipti sig víst lífi. Þar með hefur Aaron Ramsey misst landsliðsþjálfara sinn en landslið Wales var og er orðið helvíti sprækt. 

Gary Speed
Gary Speed í baráttunni gegn Arsenal fyrir mörgum árum. Parlour,
Petit og Dixon að ég held þarna á bakvið.


Robin van Persie stöðvar ekki á gulu

Nallarinn hefur verið vant við látinn síðustu vikuna. Hann sá leikinn gegn Norwich á Akureyri en Dortmund leikinn sá hann á Beverly's barnum í Noregi. Það voru heilir fjórir gestir á AK en stútfullur pöbb í Noregi enda trekktu stórleikirnir að. Við byrjum á Norwich.

Norwich 1 - 2 Arsenal

Það var í raun fáránlegt að leikar hafi endað 1-2 á Carrow Road en allt er víst hægt í fótbolta. Á 16. mínútu gaus upp rosaleg skítalykt en hún kom alla leið frá Þýskalandi. Mertesacker gerði þá í buxurnar er hann hleypti Morison fram fyrir sig úr stöðu sem virtist vera örugg. Sá þýski á enn greinilega langt í land með að vera sá miðvörður sem okkur vantaði. Robin van Persie sá um að bjarga deginum. Sendingarnar fékk hann frá Theo Walcott og Alex Song í sitthvorum hálfleiknum. Sigurinn hefði þó mátt vera stærri en það vill vera fjandi erfitt að keppa við nýliða á útivelli sem gefa sig alla í verkefnið.

Maður leiksins: Robin van Persie 

 

Arsenal 2 - 1 Borussia Dortmund

Það var vitað fyrir leik að með sigri myndi Arsenal tryggja sig áfram í keppninni. Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill en Dortmund þurfti að gera tvær breytingar á liði sínu vegna meiðsla. Mario Götze fór af velli vegna meiðsla og voru það jákvæð tíðindi fyrir Arsenal. Ég held að Arsenal hafi átt eitt skot á rammann í fyrri hálfleik og maður spurði sig í hálfleik hvort að þeir ætluðu að bjóða upp á annað markalausa jafnteflið í röð (0-0 gegn Marseille í seinasta leik).

Seinni hálfleikur fór fjörlega af stað og gerðu Dortmund sig líklega til að skora. Markið kom þó á hinum enda vallarins þökk sé frábæru einstaklingsframtaki hjá meistara Song. Það var ekkert að gerast er Song ákvað að búa til fyrsta mark leiksins. Hann sólaði þá hvern Dortmund manninn á fætur öðrum og sendi boltann beint á kollinn á van Persie og það þýddi aðeins eitt, mark! 

Persie var svo aftur á ferðinni á 86. mínútu og gulltryggði þá Arsenal sigurinn. Mikel Arteta tók þá hornspyrnu sem Vermaelen fleytti áfram með höfði sínu og endaði boltinn hjá Persie sem átti ekki í erfiðleikum með að skora frekar en fyrri daginn. Dortmund minnkaði muninn í uppbótartíma sem var í raun algjör óþarfi enda hefði Frank de Bleeckere dómari átt að vera búinn að flauta leikinn af. En það þýddi ekki að pirra sig á því enda leikurinn yfirstaðinn.

Olympiacos sigraði svo í Frakklandi sem þýðir það að Arsenal endar í fyrsta sæti riðilsins og getur því hvílt menn í síðasta leik sem er einmitt gegn þeim grísku. Væri þá gaman að sjá menn eins og Chamberlain, Park og jafnvel Miyaichi fá tækifærið í byrjunarliði.

Maður leiksins: Alex Song 

Tom Cruise
Tom Cruise fékk tækifærið gegn Olympiacos fyrir 2 árum. Hann er
nú að leita sér að félagi. Breiðablik, okkur vantar bakvörð!


Tvífarinn: Eagle-Eye Henry

Það er oft leiðinlegt í landsleikjahléum og þá sérstaklega hjá stuðningsmönnum Arsenal sem sitja heima hjá sér með krosslagða fingur og biðja Guð almáttugan að Robin van Persie meiðist ekki í enn eitt skiptið. Því hefur Nallarinn brugðið á það ráð að henda inn einum tvífara í löngum pásum sem þessum til að létta ykkur lundina.

Thierry Henry fær þann heiður að verða sá fyrsti til að eignast tvífara hér á Nallaranum. Thierry Henry þarf vart að kynna fyrir stuðningsmönnum Arsenal enda lifandi goðsögn. Hinsvegar mætti alveg kynna tvífarann hans en það er sænsk-afríski tónlistarmaðurinn Eagle-Eye Cherry. Hann er líklega þekktastur fyrir lagið "Save Tonight" en það var jafnframt fyrsti hittarinn hans.

Eagle-Eye Henry
Eagle-Eye Cherry


Eagle-Eye Henry 2
Thierry Henry
 
Eins og sjá má á ofangreindum myndum gætu Cherry og Henry vel verið bræður. Að vísu er myndin af Henry frekar gömul en ég verð að viðurkenna að lúkkið hans er að virka helvíti vel og kannski var Eagle-Eye Cherry fyrirmyndin, hver veit? 

W.B.A. engin fyrirstaða í þetta skiptið

Arsenal fékk aðeins eitt stig úr viðureignum sínum við W.B.A. í fyrra. West Brom vann þá óvæntan 2-3 sigur á Emirates en Nallarinn var þá að fagna Íslandsmeistaratitli Breiðabliks svo að tapið var ekki eins sárt. Aðeins tveir leikmenn úr þeim leik voru í byrjunarliði Arsenal í gær, þeir Alex Song og Laurent Koscielny. Liðið hefur breyst mikið síðan þá og að mínu mati til batnaðar.

Nallarinn var sáttur við að sjá Per Mertesacker á bekknum en Arsene Wenger sagði í viðtölum í gær að hann hafi búist við Peter Odemwingie í byrjunarliði W.B.A. og því hafi hann valið fljóta miðverði. Shane Long var einnig fjarverandi en hann hefur verið að stríða stóru liðunum á leiktíðinni.

Robin van Persie kom engum á óvart og skoraði fyrsta mark leiksins á 22. mínútu er hann hirti frákastið af skoti Theo Walcott. Hann lagði svo upp fyrsta mark Thomas Vermaelen í næstum tvö ár og var virkilega ánægjulegt að sjá þessa tvo pósta saman í byrjunarliði.

Staðan því 2-0 í hálfleik og engin hætta á ferðum.

Aaron Ramsey, Alex Song og Thomas Vermaelen voru allir nálægt því að skora í seinni hálfleik en það var Mikel Arteta sem sá um að klára leikinn endanlega fyrir Arsenal eftir frábært spil.

Góð þrjú stig og mörk sem komu markatölunni loksins í plús á töflunni.

Maður leiksins: Robin van Persie

Vermaelen & Persie

Úr slást..

Slast i ast

í ást :*


Engin mörk fundust á lagernum gegn Marseille

Eftir markasúpu helgarinnar á Stamford Bridge var boðið uppá markalaust jafntefli á Emirates leikvanginum í gær er Arsenal tók á móti Marseille.

Það vakti mikla athygli er Wenger ákvað að taka Robin van Persie úr liðinu og henda Park Chu Young inná í staði. Auðvitað þurfa menn sína hvíld en í svona mikilvægum leik verður að spila á bestu mönnunum því með sigri hefði Arsenal getað tryggt sig áfram í keppninni. Carl Jenkinson og Thomas Vermaelen komu svo inní liðið á kostnað Johan Djourou og Laurent Koscielny og nú loksins sáu Arsenal stuðningsmenn Mertesacker og Vermaelen hlið við hlið í vörninni.

Marseille mættu einbeittir til leiks og pressuðu vel til að byrja með en Arsenal komst svo meira og meira inní leikinn eftir því sem leið á hann. Mikið var um efnilegar sóknir en síðasta sendingin var að klikka trekk í trekk. Besta færið fékk líklega Aaron Ramsey en hann ákvað að bíða með skotið sitt alveg þangað til að varnarmaður komst fyrir hann og klúðraði þar með úrvals færi.

Ekkert gekk að ógna marki Marseille eftir þetta en Robin van Persie komst næst því að skora en hann kom inná fyrir Park sem virkaði ekki tilbúinn í verkefnið. Persie reyndi þá að chippa yfir Mandanda en því miður var ekki nógur kraftur í skotinu og því lítið mál fyrir frakkann að handsama knöttinn.

Þeir frönsku virkuðu einnig sprækir fram á við en náðu ekki að brjóta ísinn líkt og Arsenal og því var niðurstaðan markalaust jafntefli og bæði lið í þokkalegri stöðu fyrir framhaldið. Marseille hélt þar með hreinu enn einu sinni og hafa hingað til aðeins leyft Aaron Ramsey að skora hjá sér.

Fyrir leikina við Marseille sagðist Wenger vera sáttur með fjögur stig og líklega yrði það nóg til þess að enda fyrir ofan Marseille í töflunni. Við skulum vona að það rætist en framundan eru erfiðir leikir gegn Dortmund og Olympiacos sem vilja eflaust eyðileggja evrópudrauma Arsenal.

Staðan í riðlinum

1. Arsenal - 8
2. Marseille - 7
3. Dortmund - 4
4. Olympiacos - 3

Maður leiksins: Thomas Vermaelen

Thomas Vermaelen

Thomas Vermaelen á góðri stund með fyrsta bikarinn á ferlinum.


Ar53nal hirti öll stigin á Stamford Bridge í snargeðveikum leik!

Nallarinn hefur sjaldan orðið vitni að eins geðveikum leik og hann sá í gær. Fyrirfram mátti reyndar búast við hörkuleik en kannski ekki átta marka dramatík.

Það er kannski óþarfi að renna yfir öll atriði leiksins enda vænti ég þess að stuðningsmenn séu búnir að gera lítið annað síðasta sólarhring en að horfa á endursýningar af leiknum. Því ætla ég aðeins að renna létt yfir svona það helsta sem vakti athygli mína.

Samba Santos í ruglinu

Mikið var rætt um það á Nallara spjallinu hvernig vörnin ætti að líta út þar sem að Thomas Vermaelen var orðinn frískur. Hún hélst óbreytt en Nallarinn hefði viljað sjá Santos út og Vermaelen inn. Staðan hefði jafnvel litið öðruvísi út hefði sú breyting orðið að veruleika því að það má alveg skrifa tvö mörk á Santos.

Hann klikkaði illa á dekkningunni á Juan Mata í fyrsta marki leiksins og því miður var fótavinna Mertesacker það léleg að sendingin frá Mata skóp mark fyrir Chelsea. Í stöðunni 2-3 gaf hann svo boltann beint á Chelsea leikmann og upp úr því náðu þeir bláu að jafna. Það má þó spurja sig hvað Szczesny var að drífa sig í að koma boltanum í leik og einnig hvort að Lukaku hafi svo brotið á Santos í þeirri sókn.

Per Mertesucker

Santos var þó ekki eini varnarmaðurinn sem leit illa út því að Mertesacker átti heldur ekki góðan dag og eiginlega verri þar sem Santos jafnaði allavega leikinn. Fyrir utan mistökin sem hann gerði í fyrsta markinu þá klúðraði hann aftur er hann missti John Terry fram úr sér sem kom Chelsea aftur yfir. Enn og aftur var fótavinnan léleg og því miður fyrir hann þá var Joachim Löw staddur á leiknum og hefur kauði líklega ekki verið sáttur með það sem hann sá. Mikel Arteta hefði einnig mátt dekka stöngina sína betur en þá hefði staðan líklega verið 1-1 í hálfleik.  

Thierry Walcott?

Arsenal kom þó til baka þökk sé mörkum frá Santos og Walcott. Theo Walcott var frábær í leiknum og hreinlega lék sér að Ashley Cole. Það er hinsvegar ekki nóg að standa sig vel í einum leik og því þarf Walcott nauðsynlega að finna stöðugleika í sínum leik. Spili hann alltaf svona þá erum við í fjandi góðum málum fram á við með hann, Gervinho og v. Persie.

Rautt á Szczesny?

Í stöðunni 2-2 óð Szczesny út úr teignum er Ashley Cole var kominn í hættulega stöðu. Szczesny straujaði fyrrverandi Arsenal manninn niður og fékk gult spjald fyrir vikið en margir hefðu viljað sjá rautt. Hinsvegar voru Mertesacker og Koscielny komnir inní teig svo hann var ekki síðasti maðurinn. Heppnin svo sannarlega með Arsenal þarna.

Sjóðheitur Persie!

Er Chelsea jafnaði leikinn í 3-3 varð Nallarinn stressaður. Ætlaði Arsenal að tapa enn einum leiknum? Ekki að þessu sinni nei. Því að í okkar röðum er maður að nafni Robin v. Persie. Það er líklega enginn heitari í knattspyrnuheiminum í dag fyrir framan markið. Þrátt fyrir að John Terry hafi dottið í fjórða markinu þá var enn verk að vinna í að koma boltanum framhjá Cech. Það þarf mann með gæði til þess að tækla svoleiðis stöðu vel og það gerði Persie að sjálfsögðu.

Hann var þó ekki saddur og tryggði sér boltann eftir leik með glæsilegu banana skoti sem Cech átti engan séns í. Lokastaðan 3-5 í trylltum leik og fögnuðu Arsenal leikmenn þessum þremur stigum eins og þeir hefðu unnið deildina í lokin. Sjálfstraustið er komið en þó er enn pláss fyrir framfarir í vörninni. 

Næst er ekki síður mikilvægur leikur gegn Marseille á Emirates á þriðjudaginn og 1. sætið í riðlinum nokkuð tryggt vinni Arsenal þann leik.  

Maður leiksins: Robin van Persie


Arsenal í 8-liða úrslit þökk sé framlagi Arshavin

Arsenal komst í gær í 8-liða úrslit deildarbikarsins er þeir sigruðu Bolton 2-1 á Emirates leikvanginum.

Thomas Vermaelen snéri aftur eftir meiðsli og bar að sjálfsögðu fyrirliðabandið. Við hlið hans var Sebastien Squillaci sem var að leika sinn fyrsta leik á tímabilinu. Nico Yennaris þreytti svo frumraun sína með Arsenal er hann tók stöðu hægri bakvarðar. Annars var liðið nokkuð hefðbundið, blandað reynslu og ferskleika.

Fyrri hálfleikur fór fram að mestu á vallarhelmingi Bolton en þá áttu leikmenn Arsenal ágætis tilraunir að marki Bolton. Benayoun var nálægt því að skora eftir að hafa leikið Grétar Rafn sundur og saman en skotið fór rétt framhjá. Vermaelen átti svo þrumuskot úr aukaspyrnu en Adam Bogdan var vel á verði í markinu. Hann varði einnig vel frá Park sem átti nokkur skot að marki. Staðan þó markalaus í fyrri hálfleik og enn gat allt gerst.

Bolton mættu sprækari í seinni hálfleikinn og voru komnir yfir eftir aðeins tvær mínútur. Þar var að verki Fabrice Muamba en hann kemur einmitt úr akademíu Arsenal. Hann vann þá boltann af Frimpong og kom honum yfir á Darren Pratley sem fór nokkuð auðveldlega framhjá Yennaris í vörninni. Pratley lagði hann svo aftur út á Muamba sem skaut boltanum yfir þá Fabianski og Vermaelen og í netið. Bolton komið yfir og nú gátu leikmenn Arsenal nagað sig í handarbökin fyrir lélega nýtingu í fyrri hálfleik.

Þeir þurftu þó ekki að naga handarbökin lengi því að fimm mínútum síðar jafnaði Arshavin fyrir Arsenal eftir fallega sókn. Chamberlain átti þá háa og flotta sendingu á Benayoun á hægri kanti sem kom honum á Arshavin. Rússinn óð að marki Bolton og átti svo óvænt skot sem fór í gegnum lappir Zat Knight og framhjá Bogdan í markinu. Staðan orðin 1-1 og allt að gerast.

Aðeins þrem mínútum síðar kom Park Arsenal yfir með afar snyrtilegu marki. Arshavin bar þá boltann upp miðjuna og beið eftir að Park kæmi sér úr rangstöðunni. Hann sendi svo boltann á verðandi dátann sem skoraði líka þetta fallega mark. Markið minnti svolítið á markið hjá Freddie Ljungberg gegn Chelsea í FA-bikarnum fyrir mörgum árum síðan. Park þakkaði því Wenger traustið og sýndi honum að hann er tilbúinn í fleiri mínútur.

Bolton sótti stíft eftir þetta og reyndi að koma leiknum í framlengingu en án árangurs. Arsenal því komið í 8-liða úrslitin og nú er spennandi að sjá hvaða liði þeir mæta næst.

Maður leiksins: Andrey Arshavin

Ljungberg skorar gegn Chelsea.

 


Næsta síða »

Höfundur

Torfi Guðbrandsson
Torfi Guðbrandsson

Nallari síðan 1998. Meðlimur í Arsenal klúbbnum. Hef farið tvisvar á völlinn. Veikur fyrir leikmönnum með flotta hárgreiðslu.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Tónlistarspilari

Elvis Presley - The Wonder of You

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband